Liggur okkur á?

Á ÍSLANDI hefur verið mikil þensla í hagkerfinu undanfarin ár. Stórframkvæmdir á Austurlandi ráða þar miklu um en þær hafa verið umdeildar bæði út frá vistrænum og hagrænum sjónarmiðum. Margir harma þau náttúruspjöll sem virkjanir óhjákvæmilega valda og eru mótfallnir mengun frá stóriðju, en einnig hafa verið efasemdir um efnahagslegan ávinning af orkusölu til áliðnaðarins. Þá telja margir að þensla í hagkerfinu með háum vaxtakostnaði og háu gengi krónunnar skaði annan iðnað í landinu, einkum útflutningsiðnað og ferðaþjónustu. Hafa mörg slík fyrirtæki dregið saman seglin hér á landi og er skemmst að minnast breytinga í starfsemi Marel hf á Ísafirði. Heimilin í landinu fara heldur ekki varhluta af vaxtastefnunni og er skuldasöfnun þeirra verulegt áhyggjuefni. Nú þegar verið er að íhuga stækkun Álversins í Straumsvík og byggingu nýrra álvera víða um land hljóta Íslendingar að spyrja sig hvort það sé ráðlegt eins og málum er háttað. Höfum við ekki tíma til að fylgjast með fullum samfélagslegum áhrifum þeirra framkvæmda sem þegar eru í gangi og hlú að öðrum atvinnuvegum áður en ráðist er í frekari virkjanir og stóriðjuframkvæmdir?

Álver menga umhverfið í réttu hlutfalli við stærð. Þó benda megi á að miðað við hvert tonn af áli sem framleitt er sé mengun af einstökum efnum nú minni hjá Álverinu í Straumsvík en hún var 1990 er það ekki réttur samanburður því veruleg breyting hefur orðið á viðhorfi heimsins til umhverfismengunar og útblásturs gróðurhúsalofttegunda á þessum tíma. Vissulega er það góðra gjalda vert að draga úr mengun eins og gert hefur verið í takt við kröfur tímans en ekki er hægt að horfa framhjá því að stækkun eða bygging álvers hvar sem er í heiminum muni auka mengun frá því sem nú er. Endurvinnsla áls er hins vegar ekki orkufrek og er mun minna mengandi og því mikilvæg í þessu samhengi. Mættu Íslendingar ferðast þar í fararbroddi. Nýjungar í beislun orku á háhitasvæðum með djúpborunum geta einnig minnkað þörf fyrir náttúruspjöll er fylgja stórum vatnsaflsvirkjunum. Er ekki ráðlegt að bíða með frekari virkjunarframkvæmdir og stóriðju og varðveita náttúru Íslands ósnortna?

Ég hef ekki tekið afstöðu hér til tilvistarréttar risaálvers í þéttbýli, né til sjónmengunar, þar sem hún byggist að miklu á huglægu mati einstaklinga, né til fjárhagslegrar þýðingar stækkunar álversins fyrir Hafnarfjörð, sem einnig virðist byggjast á skoðun hvers einstaklings. Mér sýnist hins vegar alveg ljóst að grænt ljós á frekari stórframkvæmdir í áliðnaði nú séu ávísun á aukna mengun, umdeild náttúrspjöll og viðvarandi óstöðugleika eða þenslu í okkar litla hagkerfi. Auk þess sem það já núna verður ekki til baka tekið. Að hafna frekari framkvæmdum að sinni þýðir hins vegar ekki að dyrunum sé alveg lokað á þennan möguleika. Að fimm árum liðnum má endurskoða afstöðuna og þörf fyrir byggingu fleiri álvera eða stækkun Álversins í Straumsvík. Okkur liggur ekkert á.

Höfundur er íbúi í Hafnarfirði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband